fimmtudagur, 20. desember 2007

OFURBLOGGARI... thats me

hefði sofið yfir mig þriðja morgunin í röð ef ég hefði RAFMAGNSVEKJARAKLUKKU ;o ... jólaljósin gáfust upp fyrir rigningunni í nótt ;-)

miðvikudagur, 19. desember 2007

Tvo daga í röð....

að sofa yfir sig er einum of mikið. Vaknaði við pípið í símanum hjá bóndanum á slaginu sjö... andsk... pirraði fleiri en sjálfa mig... ein bauð mér GÓÐANN DAGINN með mikilli áherlsu ;-) ...... annar stóð á tröppunum með þandan kassann "blaðið kemur orðið of seint á hverju degi" já á hverjum degi í gær og í dag ... "þetta fer nú bara að verða hádegisblað, segðu mér.. afhverju er það að koma svona seint" nú af því ég sef yfir mig, rétti honum blaðið brosandi og labbaði í burtu... æ það er óskandi að hann jafni geðið fyrir hádegi ;-)

þriðjudagur, 18. desember 2007

Dómurinn fallinn...

svaf yfir mig í morgun... djö... fer það í skapið á mér, heilinn fer á flug af pirringi.... á meðan ég þræddi á milli húsa á öðru hundraðinu rifjaðist upp fyrir mér einn starfsmaður sem var í vinnu hjá mér þegar ég vann sem ræstingarstjóri með um 20 fyrirtæki og rúmlega 50 manns í vinnu sem sáu um að þrífa upp skítinn ;-) Blessuð konan var frekar neikvæð persóna, við vorum tveir stjórarnir sem höfðum hana í 4 stykkjum eins og það var kallað, nema hvað ég fæ kvörtun um að það hafi ekki verið þrifið í heila viku í einu stykkinu en síðan hafði konan mætt og spurt viðkomandi tengil hvort hann hefði ekki tekið eftir því að skrifstofurnar hefðu ekki verið þrifnar í viku.... og lét hann síðan vita að hún væri svo ósátt við launin sín að hún hefði bara ákveðið að að þrífa ekki.... viðkomandi tengill froðufelldi (hefur sennilega skellt í sig klósetthreinsinum óvart) þegar ég mætti á svæðið .... hún þreif ekki aftur á viðkomandi stað ;-) þessi minning skaust semsagt fram í kollinn, í mínum eigin pirring yfir því að hafa sofið yfir mig og já ekki búin að fá borguð launin ennn og komin er fram yfir miðjan mánuð...... ARGH ... ef ég væri eitthvað lík blessaðri konunni þá myndi ég ekki bera út næstu viku heldur henda blöðunum í næstu ruslatunnu .... hahahahahaha

Já eins og fyrirsögnin segir þá er Dómur fallinn í máli drengsins ;-)

miðvikudagur, 5. desember 2007

KLIKK !!

Já mar hlýtur að vera pínu ...tja allavega ogguponus KLIKK að fara út á inniskónum að sápuþvo gluggana í byrjun desember.

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

ÖKUSKÍRTEINIÐ.... já er enn í vasa

Mættum í Dómsalinn í gær, byrjuðum á að horfa á upptöku af meintu broti þar sem bíll sést koma akandi og annar strax á eftir honum..... það er Tóta ;-) löggan skýtur (í sig)og tekur u-beygju á eftir þeim.... fyrri bíllinn sést bremsa sig niður og Tóta svífur framúr en byrjar strax að bremsa og aka úti í kant. Löggan bankar uppá og drengurinn yfir í bílinn hjá þeim.... þar sem hann svarar þeim skilmerkilega öllum þeim spurningum sem hann var spurður, það heyrist vel þegar þeir tala sín á milli þessi vafi sem málið snýst um, hver sé hraðatakmörkin á viðkomandi vegi.... ER ÞAÐ 50 EÐA 70 ?? Meðalannars heyrist þegar löggan hringir inn á stöð og talar við varðstjórann um hvort hann eigi að koma með drenginn niður á stöð.. varðstjórinn spyr hvort viðkomandi sé að spá í bráðabirgða sviftingu... já segir löggan þá EÐA Á ÉG AÐ SETJA 70 Á ÞETTA ? .... varðstjórinn svarar á þá leið.... JAA ... FÓLK ER AÐ KEYRA HRATT ÞARNA .... LÁTUM ÞETTA BARA FARA Í GEGNUM DÓMSKERFIÐ... að endingu er drengurinn kvaddur með þeim orðum.... þú mátt eiga von á hárri sekt og jafnvel sviftingu í þrjá mánuði. Svoldið skondið að sjá Tótu sem er nú bara brotajárn í dag... snifff.... og drenginn sem situr í keng í aftursætinu og biður bænirnar sínar enda fyrsta skiptið sem tekinn er. Dómarinn sagði "þú ert kurteis þarna í bílnum hjá þeim" mér fannst ekki leiðinlegt að heyra það að hún skildi taka eftir því og hafa orð á því við drenginn ;-) En með framkomu löggunar við drenginn í bílnum .... jú annar var töffari en hin normal.

Svo hófst rullann.... tekin var hljóðrituð skýrsla af drengnum... báðar löggurnar voru mættar til að bera vitni.... töffarinn kom inn fyrst... varð hálf fúll þegar lögfræðingurinn spurði hann hvort hann væri nú með próf á ratarann ;-) .... normal kom síðan... þeir sosem svöruðu sínum spurning sómasamlega... og voru alveg með það á hreinu í gær að þarna hefði verið 50 á umræddum tíma... það var greinilegt að þeir vissu ekki að við vorum búin að horfa á upptöku af því samtali ... normal hálfbrá þegar honum var sagt það og hafði svo skemmtilega skýringu á því afhverju hann hafði hringt.... ;-) Vorum síðan send fram í fimm mínútur... Síðan var komið að ákæranda skoffíninu.... blablaði þetta fram og aftur....sá alveg harður á því að drengur skuli fá hámarkssekt og sviftingu í þrjá mánuði. Lögfræðingurinn er skondin og skemmtilegur kall sem virkilega gaman er að hlusta á ..... benti réttilega á að þessi upptaka sannaði ekki neitt... hann hefði beðið um gögn sem sönnuð hver leyfilegur hámarkshraði hefði verið umrætt kvöld á þessum vegi. Mar sá hverning seig í SKOFFÍNIÐ.... sem endaði á því að koma aftur upp og tönglaðist á sínu máli og já fór EKKI með rétt mál að hluta til með hvað drengurinn hafði sagt.... því tók sem betur fer lögfræðingurinn eftir og lét í sér heyra. Drengurinn hefur sagt satt og rétt frá, frá upphafi, játað að hafa ekið bílnum og á þessum hraða en fór semsagt framá athugun á hraðatakmörkunum á viðkomandi vegi... lögfræðingurinn hafði á orði að drengurinn hefði verið trúverðugur frá byrjun og upptakan sannar það þó að hin eiginlega krafa um sönnun á hraðatakmörkunum liggi ekki fyrir, eigi drengurinn að njóta vafans og fá lágmarks sekt og sleppa við sviftingu. Eftir 70 mínútur í salnum er þetta nú í höndum dómarans og hefur hún þrjár vikur til þess.... PUNKTUR.

Ég hef verið tekin nokkrum sinnum fyrir ofhraðan akstur... ekkert stór alvarlega sosem en ég keyri þokkalega löglega í dag ;-) Ég hef lent í 11 árekstrum af ýmsu tagi...tveim bílveltum ... í öll skiptin sem farþegi.... enda leið mér orðið sem einhverri óheilla kráku...er hrikalega bílhrædd með öðrum en treysti sjálfri mér.... ENNÞÁ ;-) Tvö eru verst í minninu og skilja eftir sig mestu hræðsluna... þegar veghefill rústaði bílnum sem ég var farþegi í útaf uppá háheiði fyrir vestan.. ég svitna í lófunum og hjartað pumpar hraðar þegar ég þarf að taka framúr stórum bílum... rútum, trailerum og slíkum stórum farartækjum... líður þó alltaf verst ef ég er í farþegasætinu. Hitt er þegar útúr ölvaður og dópaður einstaklingur ók beint framaná bíl sem ég var semsagt líka farþegi í .... það situr rosalega fast.... það er ein af martröðunum t.d. að keyra á milli í bæinn ... stöðugt að fylgjast með umferðinni á móti þó svo þetta hafi gerst á gömlu Skúlagötunni sem er Sæbrautin í dag. Eina skiptið sem ég sat sjálf undir stýri var þegar ein á LÖDU, búin að hafa prófið í fimm daga skellti sér aftan á mig á rauðu ljósi.... síðan eru liðin mööörg ár, já alveg 11 ár ;-) Það tekur pínu á taugarnar að vita af drengnum sínu í umferðinni.... hann er búin að lenda í ýmsu þetta ár.... missa stjórn Tótu í hálku, enda útaf.... keyra of hratt... TVISVAR búið að nappa kauða.... klessukeyra Tótu... sofna undir stýri.... enda útaf. Ég held áfram að tuða og vona það besta... innst inn hlustar hann á mömmu sín ;-)

mánudagur, 12. nóvember 2007

Styttist í dómarann

drengurinn komin með vara í gluggann.... veit hvað það þýðir.... móðirin EKKI kát.... annars fínt að keyra þennan bíl sem drengurinn á ... hann neitar samt að lána mér hann ef svo fer ... sem ég held að það fari ;-)tvær vikur... eins gott að taka ekki ákæruvaldið sér til fyrirmyndar og gleyma að mæta ;-)

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Gasssalega....

tætir tíminn áfram... 53 dagar til jóla.... ég hringi í ákveðna konu þá heyri ég jólalögin hljóma ;-)..... 358 dagar í flott fertug ;-) ómæ ..... spurning að fara herða róðurinn í því máli... tíminn jú flýgur.

Var að tuða um ljósleysi á húsum þorpsins í síðustu færslu en það er kannski bara ágætt að hafa myrkur.... sé þá ekki mýsnar sem ég hef verið að mæta síðustu morgna ;-)... JAKKKK






Neiiii bara sonnna ;-)

föstudagur, 19. október 2007

TUÐ.....

eins gott að það er ekki hátalarakerfi í heilanum á mér... myndi vekja hálft þorpið... bölsótaðist í myrkrinu og rigningunni með blöðin í lúgur og kassa í gær og í morgun ... c.a helmingurinn vel blautur og sumir lesa ekki sitt blað fyrr en í kvöld... tja nema þeir sem setja það í þurrkarann haha ;-) langaði reyndar að stinga sumum í poll svo þau yrðu rennandi og segja svo ef kvartað yrði... að ég hefði dottið í heimreiðinni... 16 hús ekki svo mikið sem ein lítil týra utan á húsunum... en hvað er mar sosem að tuða... það styttist í jólin ;-)

Annars var bara massa fínt í búðunum í Köben ;-) en sem borg þá heillar hún mig ekki... held mig við Jótland í kringum Skagen og þar .... þar er gott að vera.

laugardagur, 6. október 2007

Þvílíkir hnykkir mar....

Þetta á að kæta stúlkuna með hnéið fína......




Róleg á sveiflunni vinkona.....







Mundu svo að vera til friðs stúlkukind ;-)

þriðjudagur, 2. október 2007

Hælspori

Búin að vera íllt í hælnum á vinstri fæti í nokkra mánuði en alltaf hugsað... þetta lagast. Drullaðist til læknis í síðustu viku sem sendi mig í röntgenmyndatöku... hringdi svo í hann í dag til að fá niðustöðuna... já þú... þú ert með beinspora sagði hann... HVAÐ ER NÚ ÞAÐ... eitthvað bein sem myndast við sinar sem liggja á milli tásla og hæls .... eitthvað svoleiðis. OG hvað á ég bara að vera svona ??? .... neiiii byrjum á að fara til sjúkraþjálfara.... bólgueyðandi.... kannski sprautu í hælinn.... eða skera í hælinn.... innlegg í skó.... vera í góðum skóm.... hann sagði það ekki en ég hefði sagt það.... ÉTTU ÞIG .... nei LÉTTU ÞIG!!!!

Henti mér í tölvuna og gúgglaði þetta málefni BEINSPORI.... kom ekkert. Ok fór og sótti skvísurnar með viðkomu á pósthúsinu... sú eldri var að fá skóna sína frá Stoð. Mútta kom svo hér seinnipartinn... var nú ekki lengi að kveikja.... já hann er að meina HÆLSPORI. Og það var gúgglað og komst ég þar með að ýmsu.... t.d. "Orsakir hælspora eru of mikið álag á fótinn og oftast er um að ræða miðaldra, of þunga einstaklinga eða þá sem stunda erfiðar íþróttir!.... jújú ég er of þung og nálgast það að verða miðaldra... ekki skal sagt mikið með íþróttirnar ;-) "Fóturinn er eins og spenntur bogi þannig að maður stendur aðallega í hæl og tær. Það sem heldur boganum uppi er sinabreiða sem festist í tærnar að framan og hælbeinið að aftan. Í hvert skipti sem maður stígur í fótinn kemur álag á hælinn sem getur verið allt að því tuttuguföld líkamsþyngdin.".... hólýmólý.... 20 X ... = vóóóó.... líka langt síðan ég tók eftir því að ég slít bara alltaf öðrum skónum ....


"Þetta álag dempast af fitupúða sem er undir hælbeininu og áðurnefndri sinabreiðu. Við langvarandi mikið eða rangt álag á fótinn geta orðið skemmdir á sinabreiðunni og festingu hennar á hælbeinið. Þessar skemmdir geta verið á formi tognunar, smásprungna og að lokum beinmyndunar í sininni þar sem hún festist í hælbeinið. Þarna getur myndast lítið beinhorn sem kallast hælspori. Einstaka sinnum finnst hælspori fyrir tilviljun án þess að hafa valdið óþægindum en oftast veldur hann óþægindum sem geta verið mjög mikil. Þessi óþægindi lagast í hvíld en þau eru vanalega mest á morgnana þegar farið er á fætur. Ef þrýst er undir hælinn er það mjög sárt." ... það var málið.... það var orðið svo djö.... vont að druslast framúr.... afhverju í andskotanum drullast mar aldrei fyrr en allt er komið í rugl til læknis.... svipað og ég er að gera með hnéið á hægri fæti.... fer öruggleg ekki fyrr en ég enda á slysó og geng út með löppina í gifsi frá ökla upp í nára eins og hér um árið í gamla góða Linda ....

Eins gott að drulla þessum tugum kílóa af og í ræktina með mann.... FÍFL getur maður verið að fara svona með sjálfa sig.

Kveðjur á Réttó til konunar með hnéið....nýskorið og fínt.... KNÚS Í HÚS ... mundu að HLÝÐA ;-) ... hún er ein af þeim sem les .... en kann ekki að kvitta ;-)

FLOTT FERTUG.... koma svo ;-)

Ég sem veit ekki hvað kaffi er... eitthvað svart er það ekki ;-)

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Bankakaffi!
..sívinsælt og bráðnauðsynlegt.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Bankakaffi!
Þú ert harðduglegur og vinnusamur einstaklingur sem mætir fyrstur allra á kontórinn og ferð síðastur heim. Vinnufélagar þínir líta upp til þín og hugsa með sér í hljóði hvaðan þú fáir alla þessa orku.

Þeir vita ekki sem er. Þú færð nefnilega allan dugnaðinn úr bankakaffinu góða.

Bankakaffi er samheiti fyrir gamla góða uppáhellinginn en dregur nafn sitt af ókeypis kaffi í bönkum. VARÚÐ: Ef bankakaffi fær að standa á brúsanum of lengi verður það súrt.

jeje thats me ;-)

mánudagur, 1. október 2007

Mig dreymdi draum...

var komin í grænu dragtina sem ég nánast svaf í á árunum 97-99 og gekk inní stórt skrifstofurými þarsem voru fullt af öðrum grænklæddum kellingum sem allar höfðu hætt þarna líka á svipuðum tíma og ég.... held barasta að það hafi verið að minna mig á hvursu leiðinleg sum vinna getur verið ... sviti og tár fyrir kúnnan ... og fá skítin í staðinn í andlitið ;-) .... held ég fari nú barasta að rækta þessa hugmynd mína sem kraumar í kollinum ... hvað ég ætla nú að verða þegar ég verð stór... mar getur víst allt ef viljinn er fyrir hendi ....lengi dreymt um að vera sjálfs míns FRÚ ;-)

þriðjudagur, 25. september 2007

Allt er þegar þrennt er og verður vonandi fullkomnað í fjórða ;-)

Jæja þá er þriðju ferðinni lokið í dómsalinn... skemmst frá því að segja að ákæruvaldið mætti ekki á svæðið .... það var bókað auk þess að hann var víst ekkert búin að afla þeirra gagna sem dómarinn fór fram á .... hahahahaha.... FÍFL.

laugardagur, 22. september 2007

Mbl verður að Hbl í dag....

Aumingja umbinn á eftir að fá mörg símtölin í dag..... ég bara nennti ekki að fara í eins og 45 hús í morgun... en sjáum til í hádeginu.... tja ef að blöðin skila sér með rútunni sem uppá vantaði.... ekki bara í mínu hverfi... því það vantar yfir 100 blöð til áskrifenda.... veit ekki hvað þessi blessaði bílstjóri sem keyrir blöðin hingað hefur verið að hugsa.... og að það skuli nú ekki vera hægt að redda þessu fyrr austur... lélegt.

miðvikudagur, 19. september 2007

Prjóna húfu tja eða peysu...

skildi ég geta það.... er að spá í að láta á það reyna á næstunni.

Annars mínus 1komma2 í gær ;-)

þriðjudagur, 18. september 2007

Vertu úti....

enn einn helv... geitungurinn laumaði sér inn... hvenar fara þessi andsk... kvikindi heim til sín.

laugardagur, 15. september 2007

Haustferð í Bónus...

... að kaupa rúllutertubrauð... en þau geymast ekkert endalaust þó í frystikistunni þau liggja ;-)

fimmtudagur, 13. september 2007

Skemmtileg þessi test....

Your Brain is Red

Of all the brain types, yours is the most impulsive.
If you think it, you do it. And you can get the bug to pursue almost any passion.
Your thoughts are big and bold. Your mind has no inhibitions.

You tend to spend a lot of time thinking about love, your dreams, and distant places.

miðvikudagur, 12. september 2007

Fljótfærnin alveg að drepa mig í morgunsárið....

Vaknaði á undan klukkunni í morgun... grenjandi slag út en það er bara hressandi... best að koma sér bara af stað áður en haninn galar... þar sem ég er nú yfirleitt síðust að ná í blaðabunkana mína hafði ég ekki fyrir því að lesa á þá tvo bunka sem biðu.... ég á yfirleitt tvo flest alla morgna nema Mbl sé óvenju þykkur... annar á að innihalda Mbl og hinn Blaðið og svo eitt DV-blað innpakkað .... nema það voru fleiri innpökkuð blöð sem tilheyra öðru hverfi... ææææ blessuð konan verið að flýta sér og bara gleymt þeim hugsaði ég .... sökum slagveðursins ákvað ég að henda þeim í skjól hjá umbanum... reif upp plastið á báðum bunkunum meðan ég blótaði því hvursu ílla þeir pakka blessuðum blöðunum alltaf inn.... í svona slagveðri blotnar alltaf í gegn og lítt spennandi að þurfa setja blaut blöð í lúgur og kassa en hvað um það, uppúr sitthvorum bunkanum komu Mbl og Mbl.... hummm hvar er Blaðið.... andsk.... annar bunkinn tilheyrði öðru hverfi... hugsaði... já hún hefur óvart tekið minn bunka af Blaðinu í staðinn fyrir annan af sínum Mbl, eru jú yfirleitt tveir af Mbl hjá henni... best að bruna og finna kelluna... hvergi sást hún... argh... jæja skítt með það, má ekkert vera að þessu .... rétt komin upp að húsinu hjá umbanum til að henda af mér þessum bunka og innpökkuðu blöðunum í skjól fyrir rigningunni... kemur kellan... hefði ég lesið betur á bunkan hennar hefði ég nátturulega fattað það að blessuð konan var ókomin að sækja sín blöð og ekkert Blað fylgdi með í kaupunum í dag.... sauður ;-)

þriðjudagur, 11. september 2007

Það er DALÚN dagur í dag...

Fyrir 2 árum var þetta mikill gleðidagur, yngri dóttirinn fékk nafnið sitt. Vaknaði morguninn eftir þvílíkt kvalinn í vömbinni... viss um að ég væri komin með kökueitrun. Fyrir miðnætti var ég svo komin rænulaus á skurðarborðið... ég var sprungin. Botnlanganum fátækari fór ég heim þremur sólarhringum síðar samt enn drulluveik með hita og þvílíka verki... sögðu það bara tak í síðunni eftir spítalarúminn. Þremur sólarhringum síðar var ég aftur komin í spítalarúmið... spítalarúmin gefa manni víst lungnabólgu. Þremur sólarhringum síðar fór ég heim með verk í hjartanu og kvíða í kollinum.... fékk það líka í spítalarúminu í formi sms-skeytis.... stór hættuleg þessi spítalarúm. Eitt sem ég gleymi aldrei var þegar bóndinn var að rífa mig úr brjóstarhaldaranum og taka af mér giftingarhringinn... í morfínsvímunni hélt ég að nú væri ég að drepast... hann kæmi ekki hringnum af með sápu í dag svo sokkinn er hann.... því það eru ekki bara liðin 2 ár... heldur er ég 20 kg ríkari.... segi það og skrifa það. Í 2 ár hef ég verið syndandi í mínum eigin heimi í spikinu.... algjörlega flöt í kollinum... nú eru komnir 3 mánuðir án bleiku taflnana... svo kollurinn er orðin fínn og komin tími á MIG.... hef enga afsökun lengur... ég ætla verða fátæk... af spiki.

mánudagur, 10. september 2007

Spurning að skilja bara...

Eitt af símtækum heimilisins gaf til kynna að verið væri að hringja í viðkomandi... svaraði... "góðan dag þetta er hjá lögreglunni" kólnaði niður eftir bakinu... en púff það var bara verið að láta vita þarsem drengur er eigi orðin 18 að hann hefði verið tekin fyrir ofhraðann.... tveim dögum eftir að sektin kom í hús... furðanlega slow vinnubrögð verð ég nú að segja... en það sem vakti furðu mína var að hringt var í gemsa húsbóndans.... ekki hafði drengurinn gefið hann upp.... bara mömmusíma .... þeir hringdu þó strax deginum eftir í fyrra skiptið í MÖMMUSÍMA.... en á meðan þeir hringja ekki í fíflið eða ÞAÐ eins og drengur kallar fíflið þá sleppur þetta... tja samt varla.. furðulegt að við það eitt að gifta sig þá fer nafnið á húsbóndandanum í efstu línu... byrjaði strax áður en blekið var þornað á giftingarvottorðinu .... argh ekki að mínu skapi.

föstudagur, 7. september 2007

Taka tvö...

í dómssalnum í gær... þurfti að hringja eftir verjandanum... sá kom af fjöllum (sé jólasveininn) kannaðist ekki við að hafa fengið bréf um málið en ok var fljótur í gírinn og sagði svo það sama og drengurinn sagði síðast... ásækjandinn hafði ekki haft fyrir því að afla sér þau gögn sem talað var um síðast.... enda hrokagikkur í framkomu og hefur ugglaust talið það vera óþarfa.... "já ef dómari telur það vera nauðsynlegt" já sagði dómarinn leitaðu eftir gögnum... myndum... það leikur greinilega vafi á ..... sagði svo við drenginn þegar við gengum út.... keyrðu svo varlega. Mæting aftur eftir tvær vikur.... verður sami skrípaleikurinn þá eða slær hún hamrinum.

Drengurinn slapp þó betur en reiknivél umferðastofu sagði til þegar riddarar götunnar höfðu hendur í hári hans í lok ágúst .... EINN punkt og fimmtíuþúsundkjell ...... tók ekki tvær vikur að afgreiða þann greiðsluseðill í póstinn... þeir veita þó góðann afslátt sé borgað í tíma.

Það er svoldið skondið að ræða þetta við fólk.... sumir kasta steinum á meðan aðrir klappa á öxlina á drengnum.... enda ekkert feimnismál.... drengurinn búin að vera með eindæmum óheppinn og heppinn þessa fáu mánuði sem hann hefur haft próf.... elsku drengurinn minn.... hann spurði mig um daginn "mamma... hefur þú áhyggjur af mér" ..... JÁ

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Sjaldan fellur eplið....

Nokkuð ljóst að sumir missa teinið sama hvernig dómur fer... sá fyrir því sunnudag síðasta. "Ég verð að fara að hætta þessu" stundi drengurinn ... finnst eins og ég hafi sagt þessa setningu sjálf oft síðustu árin... þegar ég er spurð út í fríska loftið. Spurning hvenar við stöndum við það bæði tvö.

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Ekki benda á mig....

Fór í fyrst sinn inn í dómsal í gær... ekki var þó dæmt í málinu... því ákærði stóð í kokinu á þeim dómara og ákæranda... búið að skipa verjanda fyrir ákærða... mætum aftur í september... ákærði stóð sig vel... játaði á sig brotið... en fór framá nánari athugun hraðatakmarkana þar sem hann braut af sér... sat fastur á sínu.
Ákærandi var áberandi fúll og dónalegur... dómarinn var að vinna sína vinnu fagmannlega... saknaði þó að sjá ekki gráu kolluna ;-)

miðvikudagur, 22. ágúst 2007

ÖFLUG

Annað hvort er geitungbú inní húsinu mínu eða gat á því. Það liðu ekki nema nokkrar mínútur eftir síðustu færslu þá heyrist í þeirri eldri fram í eldhúsi... farðu þarna fluga og mamma þessi í glasinu er ekki dauð.... mogginn í hendina og slammm... þriðja glasið bíður.

Hetja.... það er ég

Var með bóndann á öðru eyranu þegar ég heyri þetta ógeðslega suð ... ekki í honum nei það var komin geitungur í eldhúsið mitt... ég hata þá. Það var annaðhvort að flýja heimilið eða drepa helvítið því bóndinn neitaði að koma heim og drepa þetta... kvatti mig með ráðum og dáðum svo vopnuð mogganum með gæsahúð frá hvirli til ilja, slammaði ég viðbjóðinn með tilheyrandi píkuskræk, skellti svo glasi yfir... bóndinn fær að koma líkinu fyrir. Rétt svo að hjartað væri að jafna sig.... ANNAR sveimandi kringum höfuðið á yngri dótturinni þarsem hún var að gæða sér á banana.... sá flaug svo snarvitlaus út um alla stofu... en var svo á endanum svo viti borinn að fá sér pásu í glugganum og slammm..... glas bíður bóndans þar líka. Hér áður hefði ég einfaldlega yfirgefið heimilið uns einhver annar hefði komið þessum kvikindum fyrir.

Það eru stórir grænir og svartir ormar sem skríða hér um í garðinum mínum... eldri dóttirin veit hvað skal gera við þá.... jú stíga á þá og jakk ..... slumm út um allt.

Sé ekki bara komin tími á frost og sonnna ;-)

miðvikudagur, 15. ágúst 2007

Fersk og fín..

það sem klipp-stríp-lit og plokk getur gert .... yngri dóttirinn kallaði mamma um leið og ég opnaði dyrnar, varð svo ein augu með vísifingur á loft, mállaus um stund en svo kom.... mamma VÁ!!! ég er fegurðardrottning ....

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Bévítans drasl.....

full kerra á haugana úr bílskúrnum í dag.... ekki sú fyrsta sem farin hefur verið... ennnnnn fullur bílskúr af DRASLI og innan um það liggur dót undir skemmdum því það er ekkert pláss fyrir gömlu drasli sem má ekki henda... eða koma í einhverja nýtingu... t.d. ónýtir skór.... jú hann segist fara í þá annað slagið..... flísaafgangar..... kamína... hún liggur undir skemmdum.... hillur.... ein frá mér... ein frá honum ... þær eru að hrinja undan drasli... fermingarskrifborðið.... dekk af hvíta Subaranum - Tótu .... gætu notast... baðkar... kom í geymslu í einn mánuð eða tvo.... síðan eru liðnir margir... föt .... sem ENGIN á eftir að fara í ....kassar fullir af myndaalbúmum... gestabókum... sameign þeirra systkina sem hann tók að sér að geyma... tveir slíkir voru rétt lentir í kerrunni....hann hélt ég ætti þá .... en meðvirknin með þessu rugli kom í veg fyrir það... vissulega er gott og nauðsynlegt að geyma ýmisslegt... en hafa þá eitthvað skipulag á því.... eina sem er allt á sama stað er jóladótið.... annað er eins og hráviði út um allt.... ef ég þarf að finna eitthvað í skúrnum .... þá veit hann hvar það er.... gassss... það þarf að forrita ferkantað skipulag í manninn.... ekki misskilja mig samt... gamalt er líka gott og gilt... en fáránlegt ef það er látið liggja ár eftir ár.... safna í sig vondri lykt og það gætu jú komið pöddur.... það fannst líka ýmislegt í dag sem ég hélt að ég væri búin að henda.... kertastjakarnir mínir fínu.... komnir inn og á leið upp á vegg... Pési, Kalli og Simbi, gömlu bangsarnir hans sonar míns hafa nú endurlífgað lífdaga sína.... þvottavélin og svo kúrudýr dætra minna.

Í kerrunni var... gamli ísskápurinn minn....gamla sjónvarpið mitt.... leyfarnar af gamla sjónvarpsskápnum mínum.... legokubbar og annað dót sonar míns.... baðskiptiborðið sem eyðilagðist í bílskúrnum..... ásamt almennu rusli.

Gamla kaffikannan úr sveitinni fór í kerrunni.... vona að hún hafi endað í gámnum.

Einu skiptin sem hriktir í stoðum hjónabandsins er þegar minnst er á þetta helvítis drasl í bílskúrnum.... við lýtum ekki sömu augum á hvað er drasl og hvað eru minjar sem geyma þarf. Talandi um minjar.... einhver af ykkur þrem lesendum sem langar í Ísfólksbækurnar.... já og þrekstiga ;-)

Rosalega er gott að losa hér út... amma sonar míns sagði eitt sinn þegar ég bjó á neðri hæðinni hjá henni 1990.... það fljúgja alltaf sápukúlurnar hjá þér .... kom ekki til af góðu að ég skúraði tvisvar á dag...ég bjó jú með pöddum ... föðurnum og klóakpöddum.... ég þurfti að flytja út með soninn ... þá hrökk skilningurinn í gang og gert var við skemmdirnar sem olli þessu.... stuttu síðar yfirgaf ég svo pöddunarnar alveg... hef haft PÖDDUFÓBÍU síðan...ég vildi að ég hefði enn þá orku sem ég hafði þá.... þó svo hugurinn fari reglulega af stað... það er ekki einu sinni froða sem kemur í dag.

Kökkurinn er fastur í hálsinum og tárin fljóta í laumi.... hefur komið þennan dag síðustu ár og kemur aftur að ári.

sunnudagur, 5. ágúst 2007

Sólin skín enn.....

það fittar lítt að hafa rok með henni... ekki rétt samloka það.

Fékk sms... hver var að ljúga að þér !! .... var með brýrnar upp í hársverði... þá hringdi síminn.... sú sama á ferð.... hver var að ljúga að þér.... held hún hafi verið að spá í hvern hún ætti að lemja..... eins gott að hún lemji ekki þennan viðkomandi.... þá ætti ég ekki aur.

Langar að breyta til í garðinum mínum.... eða á maður bara að byrja upp á nýtt !!

ringluð

miðvikudagur, 1. ágúst 2007

Sól sól sól sól

yndislegt fyrirbæri ;-)

Skemmtileg þessi mánaðarmót og já líka sorgleg.

Þoli ekki þegar það er logið upp í opið geðið á mér en hvað er ég pirra mig á því.... viðkomandi er jú sjálfum sér verstur.

Er með valkvíða.... þarf að fara velja mér flísar á milli innréttingarinnar í eldhúsinu.... langar í mosaík.... með grænu ívafi.... eða bara hvítar... eða ekki mosaík.... á ég að flísaleggja eldhúskrókinn líka.... þetta á eftir að taka tímana tvo.

uppgefin

þriðjudagur, 31. júlí 2007

ojj

það er haustfýla úti....betri en úldna fiskifýlan.

föstudagur, 20. júlí 2007

Ekki svo...

dauð úr öllum æðum enn....

Þoli ekki tré og runna sem þurfa að sleikjast við mann þegar mar labbar heim að sumum húsum, sama tilfinningin kemur og þegar talað er um lús í hári.... klæjar allstaðar.... kannski eru allar klippur líka uppseldar í Byko.

Þoli ekki sumt fólk þessa dagana.... þó aðallega það sem situr á priki.... líka fólk sem segir eitt í dag en annað eftir mánuð.... er það að ljúga að sjálfum sér eða svona gleymið.... eða leikarar í lífinu sem geta ekki horft framan í sjálft sig.

Þoli ekki röndóttar hlussur eða hvað þessi fyrirbæri heita.... ég fæ hroll niður og upp aftur bara við það eitt að sjá þær... afhverju er ekki hægt að útrýma þeim.... ætli þær hafi kvóta.

Þoli ekki þessi and.... hundkvikindi... ja eða eigendur þeirra réttar sagt... ætti að skilda þetta fólk á námskeið áður en það fær leyfi fyrir einu slíku kvikindi hvað þá tveim.... þó eru alltaf undantekningar sem betur fer.

Annars bara kát ;-)

þriðjudagur, 5. júní 2007

Gott að vera nóbodí

Pirrandi stundum að búa í smáþorpi þar sem þú þarft að þekkja annan eða vera undan hinum til að ýmislegt gangi upp. Stundum er gott að búa bara í borginni og vera ekki eyrnamerktur.

laugardagur, 26. maí 2007

laugardagur, 12. maí 2007

X eða X

Ég datt á hausinn í morgun, eða ég held það, fór út og eyddi mörgum klukkutímum í að skrapa tjöruklessur af montinu, bónaði svo dýrðina og uppskar blöðru við giftingarhringinn, geri þetta aldrei aftur. Fór síðan í grænum buxum, bláum næríum á rauðum bíl með sól í hjarta og bros á vör að setja EXIÐ á vitlausan stað, því hvað er svosem rétt í þessu.

föstudagur, 4. maí 2007

Hver ekur eins og ljón .....

Sonurinn hringdi í mömmu sín seint í gærkveldi og spurði mig hvort ég vissi hver væri aðal styrktaraðili laganna varða ? Á 4 dögum er búið að taka blessaðan drenginn fyrir ofhraðann akstur sem hann bíður eftir að fá úrskurð um hversu sektin verði há og hver prófmissirinn verði langur, hefðu átt að svifta hann á staðnum, þóttust ekki vita hver hámarkshraðinn var á staðnum en come on löggubjálfarnir eru nú varla svo heimskir þó æði oft þeir stígi ekki djúpt, hafa bara ekki nennt að keyra hann og bílinn heim. Og skyndilönguninn í ís í gærkveldi varð dýrari en hann ætlaði sér. Blessuð nagladekkinn, fékk þó afslátt fyrir að borga á staðnum ;-)

Spurning hvort að einhver lærdómur sitji eftir hjá honum eða hvort það þurfi að koma með komandi þroska, tja allavega er fyrirmynd sosem ekki til að hrópa húrra fyrir.

mánudagur, 30. apríl 2007

Eitt glas af Herbie te og þú hverfur ;-)

.. segi það satt, fór í klippingu í síðustu viku, hélt veislu í gær, fullt af fólki, ekki EINN minntist á breytinguna. AKIÐ á löglegum það borgar sig hahahahaha ...

föstudagur, 27. apríl 2007

Hva er a ske ....

Þetta er blús svona er lífið.... sungu Grýlurnar forðum dag, ég er á einhverju fortíðarflippi þessa dagana, langar heim í dalinn.

miðvikudagur, 18. apríl 2007

Aldrei að segja ALDREI

hvenar skildi ég læra það hmmmm....

þriðjudagur, 17. apríl 2007

Hjálpaðu mér upp, mér finnst ég vera að drukkna...DRUKKNA

er á barminum, spurning hvort eða þá hvert ég fell.

fimmtudagur, 12. apríl 2007

Ég hef syndgað

dagur EINN .... af fimmhundruðsextíuogtveimur. Jú hann byrjaði vel í svona fimm mínutur og endar eins syndsamlega og hægt er, sonur minn gaf mér fullt af svona toblerone og maður þarf jú að klára það ekki satt, þvílík sóun sem það væri að henda því. Nýr dagur að morgni rís ;-)

miðvikudagur, 11. apríl 2007

Fullt eftir enn



create your own visited countries map
or vertaling Duits Nederlands

af löndum sem maður þarf að kikka á, skemmtilegar þessar kannanir af ýmsum toga sem maður sér þegar maður hefur ekkert betra að gera en að skoða annara manna síður

Flott fertug

fyrir langa löngu eða sumarið 99 hrundi kroppurinn minn, emjandi - grenjandi lá ég eða skreið um í þrjá mánuði, á sjúkraþjálfunarbekknum lá ég í heilt ár og á endanum fékk ég nóg og skellti mér í einkaþjálfun sem skilaði frábærum árangri, eftir margra mánaða puð var kroppurinn orðin massaður af vöðvum og var það þartil að eldri dóttirin fæddist, þá fitnaði kroppurinn og slaknaði á vöðvabúntunum. Á sjúkraþjálfunarbekkinn fór kroppurinn aftur. Yngri dóttirin gerði sitt besta í hellinum í að hjálpa kroppnum, sixpakkið undir kúlunni efldist eftir því sem ég ældi meira, bein brotnuðu og kílóunum fækkaði. Hún kom svo agnarsmá í heiminn og kroppurinn minn fór í fyrra horf. Botnlanginn sprakk og kílóin sjöttnuð í smá stund en heilsan fór í lag og kroppurinn blómstraði sem aldrei fyrr af spiki. Á sjúkraþjálfunarbekkinn fór kroppurinn enn og aftur. Vöðvabúntin eru engin, nóg er af fastri fitu og styttist í fertugt. ÞETTA GENGUR EKKI LENGUR. Eftir raunir gærdagsins þá hefst leitin að kroppnum með vöðvabúntunum og flottur skal hann verð áður en tímaklukkan hans slær fertugt. 562 dagar til stefnu, 30 kíló þarf að kveðja og flott skal ég verða FERTUG. Það duga engar skyndilausnir heldur hreyfing og borða rétt og reglulega, ekkert kók og súkkulaði hér meir og ekkert elsku mamma ég byrja á morgun eða mánudaginn!!! NEI NÚNA. Og það besta er að ég veit að ég mun finna kroppinn minn aftur, hef gert það áður og get það einu sinni enn.

laugardagur, 7. apríl 2007

nana nana búbú

búbú búbú nana

föstudagur, 30. mars 2007

Jakkafötin

Maðurinn minn er antik og verðmætur eftir því, allt sem hann eignast verður að antik því engu má henda. ANTIK er góð, þó í bland við núið ;-)

KAFFIKELLA !!!

Jakkafötin bíða eftir því að verða sótt og fá nýtt hlutverk í lífinu!!

miðvikudagur, 28. mars 2007

Vetur - Vor eða VETUR

alveg LOST í þessu.

Var að hugsa það í morgun hvort ég talaði upphátt við póstkassanna/lúgurnar eða hvort hugsanir mínar væru ekki örugglega hljóðlausar. Það var nýr póstkassi í morgun, ógisslega dætur sonnna GRÆNN ;-)

mánudagur, 26. mars 2007

föstudagur, 23. mars 2007

Raunir

það skröltir í taugunum þegar fyrirtæki auglýsa heimasíður og svo eru þær ekkert nema fronturinn. ARGH

fimmtudagur, 22. mars 2007

Ég skal mála allann heiminn elsku mamma.....

Það tók mig þrjá daga að mála þvottahúsið mitt!

Dagur eitt; pilla allt draslið út = stórhættuleg með borvélina
Dagur tvö; SPARSLA eftir niðurrif af völdum vankunnáttu á borvél, gamla skrúfjárnið hentar mér betur
Dagur þrjú; Þeir SLETTA málningunni sem eiga hana
nokk ljóst að dagurinn í dag fer í að þrífa sletturnar og svo er það STÓRA spurningin hvort ég verði smiður þegar ég verð STÓR því ekki verð ég málari.

Ég er viss um að tauið verður hreinna núna ;-)

laugardagur, 17. mars 2007

Einn öl ...

og eftir marga ölara fær ein kona reglulega þörf til að hringja í mig og ræða um drenginn. Hér áður fyrr jammaði ég og jáað en GAS ég elska að svara henni í dag þegar henni dettur í hug að nefna sæðisfrumuna sem ég fékk að láni svo einkasonurinn yrði minn og bara MINN. Skál fyrir henni og vonandi verður nóttinn henni ljúf og morgundagurinn ÆÆ

fimmtudagur, 15. mars 2007

Bíll með vængi...

ekki nóg með að það séu auglýst dömubindi með vængjum og mar skal fljúga frjáls sem aldrei fyrr þá daga heldur er farið að auglýsa bílategund með vængi !! spurning að sonurinn fjárfesti í einum slíkum.

miðvikudagur, 14. mars 2007

Mér leiðast svo eldhúsverkin...

hvað þá þessar helv....... eldhúsumræður, ekkert nema sömu helv... tuggurnar sem koma út úr þessum ..........

mánudagur, 12. mars 2007

Pósturinn Páll

Pósturinn flaug inn um lúguna áðan svona rétt eins og hann gerir flesta daga en það sem vakti athygli mína að það var búið að rjúfa innsiglið á einu blaðinu. Ekki að það valdi mér neinum "raunum" alltaf gaman að fletta svona blöðum stútfullum af allskonar flíkum í öllum stærðum og regnbogans litum en HALLÓ það var merkt mér. EN skildi Pósturinn Páll opna umslögin yfir gufu? eða gegnumlýsa :o

sunnudagur, 11. mars 2007

enjo

Æ lof itt ;-)

laugardagur, 10. mars 2007

SMS

vaknaði í nótt við eitthvað bíbb og teygði mig í símann, KOMINN HEIM. Einn sem þekkir múttu sína og er farin að virða þörf hennar fyrir að vita af honum heilum. Gormurinn minn er eitthvað smá lúmperaður eftir flugferðina.

föstudagur, 9. mars 2007

Hvað leggur maður ekki sig

Hringdi ungur herramaður í vikunni og bauð til veislu, ég svitnaði, ég gleymi aldrei augnaráðinu sem hann sendi mér eftir að hafa rúllað augunum upp og niður eftir mér með þvílíkum vanþóknunarsvip daginn sem hann sá mig fyrst og þá aðeins rétt rúmleg tveggja ára gamall. Ég var ekki álitleg og hvað þá að voga mér í höll frændans. Fór í þvílíka bjútíuppherslu á sjálfri mér í gær í tilefni veislu unga herrans að meira segja kallinn tók eftir því.

Mér líður aftur eins og hjúmanbín ;-)

fimmtudagur, 8. mars 2007

Víða hálkublettir

Þetta heyrir maður stundum í fréttum og með sanni er það í dag, rann svo til að mér er íllt í helv,,,, p,.,beininu. Er það ekki málið að þeir sem vilja fá mína þjónustu fyrir klukkan sjö já eða korter í átta séu búnir að fara út klukkan sex og salta!

miðvikudagur, 7. mars 2007

Ekki dauð úr öllum .....

Fékk nett nóg af sjálfri mér í dag. Yngri dóttirinn byrjaði á því að ata mig út eða sko bolinn, tók því ekki að skipta. Eldri dóttirinn hló svo mikið að hún gubbaði yfir sama bol, þessi bolur átti að verða fjósabolur en er nú í sorptunnunni. Ef konan sem sást stundum á ferðinni síðasta sumar kafandi ofaní annara manna sorptunnur í leit að flöskum skildi koma í mína þá má hún hirða hann ef hún nennir að plokka ælubitana úr honum. En málið er að ég naglalakkaði neglurnar í dag, ár og öld síðan ég hafði fyrir því, spá í að vaxa á morgurn, þó ekki braselíkst, górilla færi hjá sér ef hún sæi mig bera.

Yfir til þín kaffikella, mOGm-ið er LÖNGU búið, ertu ekki á leið aftur út?? Og nei blaðberinn er ekki að standa sig, fékk kvörtun í morgun, það er eitthvað svo gott að sofa þessa dagana, held samt að þessum langi í sjálfboða vinnuna mína haha.. Viðtalið.... segi ekki orð um það hérna.

mánudagur, 26. febrúar 2007

Slurp...

mOGm í morgunmat ummmmmmmmmmm

fimmtudagur, 22. febrúar 2007

Æ....

ég þarf að skrifa lýsingu á sjálfi mér á blað. Persónueiginleikar mínir!! Styrkleikar mínir!! Veikleikar mínir!! Og hvað vil ég helst vinna við!! Ég veit ekki enn hvað ég vil VERÐA þegar ég verð stór ;-)

þriðjudagur, 20. febrúar 2007

Hvað er þetta..

með mig og HUNDA!! Ætli ég hafi verið eitt slíkt kvikindi í fyrra lífi!! Mér leiðist þessi setning "hann er svo góður" og ekki er þessi betri "hann gerir þér ekkert" og hvað þá þessi " hann er svo ljúfur" hann hét einmitt LJÚFUR sem sökkti sér á kaf í annan kálfann minn hér um árið. Forðaði mér undan einu lausu kvikindi í býtið, merkilegt að eigendur slíkra kvikinda geti ekki haft þetta bundið eins og LÖG gera ráð um.

mánudagur, 19. febrúar 2007

Heimilið mitt...

er skítapestaælubæli. Djö... geta karlmenn verið miklar kellingar.

laugardagur, 17. febrúar 2007

Húsið..

mitt er hreint! já loksins mætti skúringarkonan á svæðið, kófsveitt skreið hún á hnjánum og skrúbbaði hvern fermeterin af öðrum. Ég ætla að njóta þess að horfa á Júróslefvisjón með kertaljós og KÓK í mínum eigin sófa á meðan aðrir flýja land til að klæðast gullgalla og syngja um Húsin sem hafa augu. Í mínu þorpi hafa þau það og stærri eyru en Eyrnastór.

föstudagur, 16. febrúar 2007

Dagurinn í stíl við veðrið ...

minnstingurinn vakti alla rúmleg fjögur í morgun, ælandi og spúandi út um allt, passlega þegar allir voru farin í vinnu - skóla þá byrjaði ég líka, ég veit ekkert eins viðbjóðslegt, þvottavélin kúaðist í allan dag.

föstudagur, 9. febrúar 2007

Gaggalagú

Sé fyrir mér svona eitthvað í líkindum við golfbíl með HANA á toppnum og við hvert hús myndi ég toga í spottann á honum, svona stæling á ísbílnum sem þeytist um á sumrin og selur manni ís í heimskeyrslunni hjá manni. Ég er farin að tala við Thí dog á morgnana þegar hann bíður mín við lúguna, stríði honum aðeins áður en blaðið flýgur í kjaftinn á honum, hló að honum í morgun þegar hann reif í sig blaðið svo ræmur stóðu út um lúguna ;-)

fimmtudagur, 8. febrúar 2007

Fari það í hoppandi h......

voru fyrstu orð dagsins í dag sögð klukkan 7.14

miðvikudagur, 7. febrúar 2007

Bjössi á mjólkurbílnum ?

Hver ekur eins og ljón með aðra hönd á stýri ?
Hvar ertu jörðin mín ?
Bjarnastaðarbeljurnar baula þær eftir mér ?

laugardagur, 3. febrúar 2007

Á hæl og tá

Fékk einkabílstjóra í kvöld, hef aldrei verið jafn lengi að koma blöðunum út ;-)
Þorpsbúar blóta þorranum í kvöld, það voru pinnahælspor við hvert hús, skildu margar fá flugferð ókeypis í kvöld ;-)

fimmtudagur, 1. febrúar 2007

Rigning

Hressandi að fara út í býtið og láta rigninguna vekja mann. Réðst á mig póstlúga í morgun, ekki í fyrsta sinn.

mánudagur, 29. janúar 2007

FLOTTA GRÆNA HÚSIÐ

Í rigningarsudda hélt ég af stað í morgun korteri á eftir áætlun, beið mín ekki kona í einum dyrunum og fór bara á spjallið í býtið. ERTU HÉÐAN ÚR ÞORPINU!! Ég líka aðfluttur andskoti. HVAÐA BÖRN ÁTTU!! ó hann, hann er svo æðislegur. HVAÐ HEITIR ÞÚ!! ó ertu ein af þeim. HVAR BÝRÐU!! ó í flotta græna húsinu, það er svo flott. Hurru já hún bað mig líka um að taka af mér húfuna svo hún sæi mig betur (rauðhetta og úlfurinn) Eftir þessa yfirheyrslu hélt ég áfram, thí dog beið mín við lúguna, hahaha ég er viss um að hann étur blaðið, bévítans læti í einum hundi. Brunaði yfir í næsta botnlanga og þar á eftir mér kom ein fersk heim eftir ræktina og þegar hún var að hoppa útúr bílnum kom ég röltandi og bauð GÓÐANN DAGINN og sjittt ég hélt eitt lítið augnablik að ég þyrfti að fara í hjartahnoð :-o

föstudagur, 26. janúar 2007

Skemmtilegt símtal áðan

ein kella kaffilaus í miðjum sandkassanum, þar sem ég drekk ekki kaffi og því engin kaffibrúsin í skottinu þá var lítið annað að gera við hana en að koma henni heim ;-) fyrrum tittir skemmta sér vel yfir svona kellum ;-)

fimmtudagur, 25. janúar 2007

Sms

Oki ég náði. Ekki var það flókið.

Með störu

á símann. Litla stóra barnið er í bílprófinu akkúrat núna.

miðvikudagur, 24. janúar 2007

Fer fetið

þá er klukkan orðin rétt á síðunni, hvernig í and..... skildi kaffið hafa sett inn þessa linka!! hugsihugs..... fiktifikt

þriðjudagur, 23. janúar 2007

Belja á svelli

kemur kannski að því að ég sjái það.

laugardagur, 20. janúar 2007

Skelfileg sýn

Skrölti á lappir rúmlega 6 og út í frostið. Rétt lögð af stað þá blasti við mér fullt af bláum blikkandi ljósum. ALMÁTTUGUR það var eitt stykki hús að brenna, akkúrat húsið þarsem blaðinu er hent fyrir utan, svo ekki komast ég akandi heldur þurfti að fara krókaleiðir klofandi í sköflum. Með hökuna niður á bringu af þeirri skelfilegu sjón sem við mér blasti dröslaði ég búnkunum sömu leið til baka, sveið í puttana af böndunum sem halda búnkunum saman. Mætti konu sem sagði mér að sem betur fer væri húsið mannlaust svo engan sakaði. Fór að bera út í þeim götum sem ekki voru lokaðar og mætti einu smá hundkvikindi geltandi af hræðslu held barasta með löggumann á hælunum sem var að reyna ná honum. Kom heim svoleiðis angandi svo það var ekkert annað að gera en að strippa, henda fötunum í þvottavélina og undir sturtuna. Vakti dömurnar og skoppuðum við í Íþróttaskólann og kláruðum svo að koma blaðinu í brunagötuna, þvílík gleði hjá löggumönnunum sem húktu í bílnum á verðinum þegar ég gaf þeim eitt stykki blað. Hrikaleg sjón að sjá brunnið húsið, ekkert heilt, hræðilegt.

þriðjudagur, 16. janúar 2007

sko mig

þetta er bara drulluauðvelt eða aaaaaa ég fæ mér smá kaffi og þá reddast þetta ;-)

komin í bloggheiminn

Jæjæ ég prófa þetta :-)